Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
29.10.2010 | 09:39
Hvað með útflutningstekjur?
Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls." Munum að verðmæti útflutnings er ekki það sama og útflutningstekjur, tekjurnar koma ekki endilega inn í þjóðarbúið sbr. t.d. þessa frétt á mbl.is.
Vöruskiptin hagstæð um 10,6 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2010 | 10:42
Ofmeta fjármálafyrirtækin eftirstöðvar gengislána?
Grein í Morgunblaðinu 27. okt. eftir Sturlu Jónsson endurskoðanda hjá Nordik Finance.
Gengistryggð lán og ólögmæti þeirra hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu, hvort sem það er á opinberum vettvangi eða á kaffistofum landsmanna. Með frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra, sem ætlað er að greiða fyrir málum og tryggja sanngirni, verður tekið á ýmsum óvissuþáttum sem myndast hafa í kjölfar dóma Hæstaréttar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum sem varða endurútreikning lánanna en ólík aðferðafræði við endurútreikning getur haft veruleg áhrif á endanlega niðurstöðu.
Þegar þessi orð eru skrifuð hafa eingöngu tvö fjármálafyrirtæki gert útreikninga gengistryggðra bílalána aðgengilega viðskiptavinum sínum. Það er skemmst frá því að segja að verulegur vafi er á því hvort þessir útreikningar standast. Ef svo er má ætla að fjármálafyrirtækin ofmeti eftirstöðvar lánanna um 10-30% að meðaltali fyrir lán tekin á árunum 2005 til 2007 þó svo ofmat einstakra lánasamninga geti verið mun hærra. Á nýrri lánum er ofmatið lægra.
Hvernig skal endurreikna samningana?
Fyrir liggur að þegar vextir og afborganir lánsins eru endurreiknaðir miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, líkt og dómur Hæstaréttar gerir ráð fyrir, fæst greiðsluröð sem getur verið mjög frábrugðin þeim greiðslum sem skuldari innti raunverulega af hendi. Ýmist kann hann að hafa greitt meira eða minna en hin nýja greiðsluröð segir til sem má því túlka sem of- eða vangreiðslur.
Sú spurning vaknar óneitanlega hvernig skal fara með þessar of- eða vangreiðslur í endurútreikningnum. Hafa jafnan tvær leiðir verið nefndar í því sambandi. Í fyrsta lagi að færa ofgreiðslur eða vangreiðslur til hækkunar eða lækkunar á höfuðstól lánsins sem hefur þannig áhrif á endurútreikning gjalddagans næst á eftir.
Í öðru lagi mætti færa mismuninn á sérstakan veltureikning sem síðan er vaxtareiknaður til dagsins í dag. Er síðarnefnda aðferðin einfaldari í framkvæmd og jafnframt sú aðferð sem þau fjármálafyrirtæki sem birt hafa útreikninga sína, SP fjármögnun og Íslandsbanki, beita í reynd, með mismunandi framsetningu þó.
Er löglegt að krefjast vaxta á vangreiðslur?
Báðar framangreindar aðferðir hafa í för með sér vaxtareikning á bæði vangreiðslur og ofgreiðslur á hinum nýju endurreiknuðu samningum. Í endurreiknuðum eftirstöðvum lána myndast svo nær undantekningalaust vaxtakrafa á skuldara vegna vangreiðslna. Er heimilt að krefja skuldara um vexti á vangreiðslur af þessum toga?
Það er lögfræðilegt álitaefni hvort svo sé. Hér er ekki um vangreiðslu að ræða í hefðbundnum skilningi þess orðs þar sem greiðsla var sannarlega greidd eftir greiðslufyrirmælum fjármálafyrirtækisins á sínum tíma sem skuldari innti af hendi í góðri trú. Hafi fjármálafyrirtækið reiknað greiðslur á gjalddögum rangt verði það sjálft að bera hallann af því. Sé rýnt í dóm Hæstaréttar verður ekki annað séð við lestur þeirrar kröfulýsingar sem dómurinn féllst á að vangreiðslur hins stefnda séu ekki vaxtareiknaðar. Þegar krafan er lesin í samhengi við aðrar kröfur stefnanda verður ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að ofgreiðslur séu vaxtareiknaðar en vangreiðslur ekki. Ekki er vikið sérstaklega að þessum þætti í dómsorðinu.
Mótrökin eru þó þau að án vaxtareiknings nýtur skuldari í raun tvöfalds ávinnings, vaxtaleysis af hluta af endurreiknuðum greiðslum og þess fjárhagslega ávinnings sem felst í því að hafa notið lægri greiðslubyrði á sínum tíma.
Vaxtakrafan getur verið veruleg fjárhæð
Þessi umrædda vaxtakrafa sem innifalin er í endurútreikningi fjármálafyrirtækja getur numið nokkuð stórum hluta af eftirstöðvum lánsins. Skv. útreikningum greinarhöfundar ætti þessi umrædda reikningsaðferð að leiða til þess að íbúðarlán tekið í upphafi árs 2006 sé ofmetið um 12% ef vaxtakrafan á ekki rétt á sér. Ef eftirstöðvar nema 20 millj. skv. endurútreikningi fjármálafyrirtækis er það þá ofmetið um rúmar tvær milljónir króna. Það getur skipt sköpum þegar metin er skuldastaða heimilisins og eigið fé í íbúðarhúsnæði. Sambærilegt lán sem tekið er í upphafi árs 2007 er ofmetið um 8%.
Ofmatið er enn meira hlutfallslega þegar vikið er að bílalánum. Bílalán sem tekið er í upphafi árs 2006 er þannig ofmetið um 43% sem sömu reikniaðferð. Sambærilegt lán sem tekið er í upphafi árs 2007 er ofmetið um 15%.
Þó er það háð lánsfjárhæðum, lánstíma og hvernig raunverulegar greiðslur hafa þróast af lánum hversu há vaxtakrafan er hverju sinni.
Og hvað nú?
Ofangreindir útreikningar sýna að sú aðferðafræði sem notuð er við endurútreikning getur skipt sköpum fyrir skuldara. Það er því vonandi að með yfirvofandi lagasetningu verði tilgreint ýtarlega hvernig endurútreikningar eiga að fara fram, skuldurum og fjármálakerfinu öllu til hagsbóta.
Birt með leyfi höfundar,
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2010 | 21:32
Hlutverk Landsvirkjunar?
Hins vegar takmarki það möguleika á arðsemi, að fyrirtækið hafi það hlutverk að útvega tiltölulega ódýra orku til stóriðju."
Er það hlutverk Landsvirkjunar að útvega ódýra orku til stóriðju?Þetta er hlutverk Landsvirkjunar skv. vefsíðu félagsins.
Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.10.2010 kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2010 | 12:45
Hvað varð um lán Landsbankans til SP fjármögnunar?
Í ársreikningi nýja Landsbankans (NBI), er ekki að finna þau lán sem SP átti að hafa fengið að láni hjá Landsbankanum fyrir lánum SP til viðskiptavina í erlendri mynt."
Það er fróðlegt að skoða ársreikning NBI hf. fyrir tímabilið 7. okt.- 31. des. 2008. Flestir þeir sem eitthvað kunna fyrir sér í lestri ársreikninga vita að SP-fjármögnun hf. er hluti af samstæðu bankans og félagið því óaðskiljanlegt frá henni sem dótturfélag. Þá er NBI hf. eini lánveitandi félagsins. Í skýringu nr. 73 á bls. 59 í ársreikningnum er að finna yfirlit yfir eignir og skuldir samstæðunnar eftir myntum. Þar kemur fram að samstæðan (þ.m.t. bílalán SP-fjármögnunar) á eignir að fjárhæð 126,2 milljarða króna í jpy. og 130,1 milljarða kr. í chf. Samstæðan skuldar hins vegar einungis 298 milljónir í jpy og 446 milljónir í chf., eða brotabrot af eignum í viðkomandi myntum. Hvernig fæst það staðist?
Í dómi héraðsdóms í máli SP gegn Óskari Sindra, 3.des. 2009, kemur eftirfarandi fram:
Kjartan (innsk. framkvæmdastjóri SP) sagði að SP-fjármögnun hf. væri í samstarfi við bílasala og bílaumboð um allt land. Þegar Óskar Sindri Atlason óskaði eftir að fá bifreiðina VT-658 á bílasamningi hjá SP- fjármögnun hf. hafi verið send umsögn um það til félagsins. Starfsmenn félagsins hefðu skoðað það og metið hvort hann væri traustsins verður. Óskar Sindri hefði sótt um það í erlendri mynt og um leið og SP-fjármögnun hf. samþykkti það þá hafi verið gengið frá því að SP-fjármögnun hf. tæki lánið hjá viðskiptabanka félagsins í erlendri mynt. Síðan hafi félagið selt þessa erlendu mynt og greitt það út annar vegar í japönskum jenum og hins vegar í svissneskum frönkum. Félagið hafi sem sagt tekið erlent lán fyrir þessu hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbanka Íslands. Selt síðan erlendu myntina fyrir íslenskar krónur og greitt þær seljanda bifreiðarinnar, Nýju Bílahöllinni."
Og áfram segir:
Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. fjármagnaði útlán sín með lántökum hjá Landsbankanum. Þegar SP-fjármögnun hf. lánaði út dollara þá tæki félagið lán í dollurum. Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum. Kjartan sagði að erlendar lántökur væru 80 til 90% í starfsemi félagsins, eða hefðu verið það fyrir hrun. Nú stæði ekki erlend mynt til boða. Allir nýir samningar í dag væru í íslenskum krónum."
Og enn segir:
Kjartan sagði að þegar menn greiði SP-fjármögnun hf. í íslenskum krónum af svona bílalánum þá kaupi félagið með íslensku krónunum erlendan gjaldeyri til að greiðir skuld félagsins vegna viðskiptanna."
Þessi lán er alla vega ekki hægt að finna í samstæðuuppgjöri Landsbankans (NBI hf.). Fyrst svo er ekki er hægt að fullyrða að þau er ekki að finna í ársreikningi SP-fjármögnunar hf. Að minnsta kosti ekki eins og kaupin virðast hafa gengið fyrir sig á eyrinni samkvæmt staðhæfingum framkvæmdastjórans. Maður veltir því fyrir sér hvort framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar hf. hafi sagt rétt og satt frá í rétti en frásögn hans hafði ótvíræð áhrif á niðurstöðu dómarans í málinu.
Hér er dómurinn.
Hefja rannsókn strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2010 | 09:51
Þurrka út skuldir sem ekki er hægt að greiða...
Almenn niðurfærsla skulda ólíkleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2010 | 18:30
Svarbréf til FME vegna endurútreikninga lána
Það reynir verulega á þolinmæðina að eiga samskipti við Fjármálaeftirlitið (FME) og aðrar eftirlitsstofnanir." Þetta bréf sendi ég FME í gær og er svarið við því þar neðar. Þetta sendi ég svo í dag.
Sæll Sigurður,
Ég sendi þér hér dæmi um endurútreiknað lán frá SP fjármögnun. Upphafleg lánsfjárhæð var 2.000.000,-. Gætirðu útskýrt þessa útreikninga og hvers vegna er t.d. talað um verðbætur á bls. 3? Þetta er lán með óverðtryggðum vöxtum.
Og ein spurning varðandi endurútreikninga á síðu SP fjármögnunar er svo hljóðandi:
"Greiðsluseðlar hafa ekki verið sendir út í fjóra mánuði, hvernig verður það tímabil meðhöndlað?".
Svarið er svo hljóðandi: "Upphæð sem nemur þessum fjórum gjalddögum verður bætt við höfuðstól og samningstími lengdur um fjóra mánuði."
Það er einungis hægt að reikna vexti af endurreiknuðum höfuðstól á umræddu tímabili til samræmis við vexti Seðlabanka Íslands. Það að bæta umræddum ógreiddum greiðslum við endurútreiknaðan höfuðstól þýðir í raun að fyrirtækið ætlar að rukka viðskiptavini sína um margra tuga prósenta vexti á umræddu tímabili.
Hafa fyrirtækin heimild til að lengja lánstímann án samþykkis lántaka?
Núvirði lánsins er það sama og fyrir breytingu (og hafa breytingarnar því ekki áhrif á CAD hlutfall fyrirtækjanna) og því er ekki um neina lækkun að ræða, bara búið að breyta ólöglegu láni í löglegt, ekki rétt?
Neytendastofa segir að hún hafi ekkert með sölureikningana að gera. Er það ekki hlutverk FME að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr.8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi?
með kveðju,
Þórdís
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2010 | 10:11
Bréf sent FME vegna endurútreikninga bílalána
Sæll Sigurður
Þar sem útreikningar fjármögnunarfyrirtækjanna eru byggðir á tilmælum FME og SÍ frá því í lok júní, þ.e. að óverðtryggðir vextir SÍ skuli koma í stað samningsvaxta (síðar staðfest af dómstólum) óska ég eftir upplýsingum um hvernig þessir útreiknigar áttu nákvæmlega að fara fram. Þeir sem hafa fengið endurútreikninga frá SP fjármögnun eru engu nær um hvernig nýja fjárhæðin er fundin og stemmir hún ekki við þá útreikninga sem fengnir eru á t.d. sparnaður.is. Á FME ekki til dæmi um útreikning sem hægt væri að fá að sjá?
Ég vil einnig benda FME á að fjármögnunarfyrirtækin geta ekki lengur kallað samninga sína leigusamninga og bifreiðina ekki lengur leigumun." Hæstiréttur hefur úrskurðað að kaupleigusamningur væri lánssamningur en ekki leigusamningur. Þar af leiðandi eiga viðskiptavinir að fá afsalið fyrir bílnum. Ég hef líka bent FME áður á að fyrirtækin áttu að gefa út sölureikninga fyrir bílum og tækjum sem þeir seldu fólki, það kemur t.d. fram í lið V í kaupleigusamningum SP og lið VI í samningum Avant. Aðeins Lýsing virðist hafa afhent sölureikninga og SP gaf aðeins út nokkra, þ.e. til þeirra sem kröfðust þess að fá reikninginn skv. samningum.
Að lokum vil ég spyrja hvort það sé rétt að Avant ætli að halda áfram að innheimta en ekki að greiða til baka ofreiknaðar greiðslur. Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að viðskiptavinir fyrirtækisins voru hvattir til að halda áfram að greiða og varaðir við vanskilakostnaði og öðru sbr.tilkynningu á vef Avant 16.02.2010: Þeir viðskiptavinir AVANT hf. sem greiða skilvíslega af gengistryggðum samningum þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir missa því engin réttindi gagnvart félaginu. Eru viðskiptavinir Avant hf. hvattir til að greiða skilvíslega af bílasamningum og forðast vanefndir enda er fyrirsjáanlegt að þær munu hafa í för með sér verulegan vanskilakostnað og óþægindi fyrir hlutaðeigandi greiðendur ef Hæstiréttur snýr við niðurstöðu héraðsdóms í framangreindu máli."
Þegar þessi tilkynning er gefin út mátti stjórn Avant og fleirum vera ljóst að fyrirtækið væri á leið í þrot.
með kveðju,
Þórdís Sigurþórsdóttir
Bloggar | Breytt 12.10.2010 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2010 | 12:56
Bréf lögmanns til FME vegna gengistryggðra lána
Bréf þetta var sent til FME af lögmanni vegna innheimtugaðgerða fjármálafyrirtækjanna.
Sæll Sigurður.
Ég vísa til samtals okkar fyrr í dag og ítreka þakkir fyrir að svara skilaboðum mínum frá því í morgun.
Núverandi háttsemi bankanna við innheimtu gengistryggðra lánasamninga er að mati undirritaðs með miklum ólíkindum. Allir stóru bankanna, auk BYRs, Dróma, þortabús Frjálsa fjárfestingabankans og annarra þeirra er hafa gengistryggð lán í eignasafni sínu, innheimta þessa samninga algerlega án tillits til niðurstaðna Hæstaréttar Íslands frá 16. júní sl. Það er hreinlega eins og þessir aðilar sem þarna stjórna, hafi alls ekki heyrt af því að Hæstiréttur Íslands er búinn að staðfesta ólögmæti gengistryggingar krónulána, skv. 13. sbr. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Þessi fjármálafyrirtæki, sem öll starfa skv. starfsleyfi frá FME og sum raunar á ábyrgð stofnunarinnar, halda áfram að innheimta þessi lán af fullum þunga, án þess að horfa neitt til þess að mörg þeirra eru klárlega með ólögmætum gengistryggingarákvæðum. Það er verið að hóta fólki og fyrirtækjum, bjóða upp fasteignir, gera árangurslaus fjárnám og gera fyrirtæki og einstaklinga gjaldþrota, allt á grundvelli útreikninga sem ekki fást staðist íslensk lög!
Nokkrir af mínum umbjóðendum hafa þegar kært þessa háttsemi til lögreglu og þá um leið Fjármálaeftirlitið fyrir hlutdeild í þessum brotum, en þessi háttsemi fer fram með fullri vitund og í sumum tilvikum a.m.k. einnig á ábyrgð stofnunarinnar. Fjársvikaákvæði Almennra hegningarlaga nr, 19/1940 er eftirfarandi:
248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
Telja verður verulegar líkur á því að ofangreint framferði þessara fjármálafyrirtækja og ábyrgðarmanna þeirra sé brot á framangreindu ákvæði hegningarlaganna.
Þá segir einnig í hegningarlögunum í kaflanum um skjalabrot:
155. gr. Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.
[Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.]1)
Hafi aðeins verið um lítilræði að tefla, eða miklar málsbætur eru að öðru leyti, einkum ef fremjandi hefur ekki ætlað að baka öðrum tjón, má beita [fangelsi allt að 1 ári]2) eða sektum.
1)L. 30/1998, 1. gr. 2)L. 82/1998, 72. gr.
156. gr. Sömu refsingu, sem í 155. gr. getur, skal sá sæta, sem notar skjal með ófalsaðri undirritun, til þess að blekkja með því í lögskiptum, enda hafi útgefandi þess verið gabbaður til að undirrita skjalið í þeirri trú, að það væri annað skjal eða skjal með öðru efni.
Leiða má líkum að því, að þessi háttsemi fyrirtækjanna og stjórnenda þeirra, brjóti einnig gegn 156. grein laganna, enda verður að telja að um augljósar blekkingar um raunverulegt efni þessara skjala. Við fjársvikum liggur allt að 6 ára fangelsi, en við síðara skjalabrotinu allt að 8 ára fangelsi. Ljóst má vera að það myndi horfa til refsiþyngingar, að brotin eru framin gegn almenningi/neytendum í leyfisskyldri fjármálastarfsemi sem á að vera undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og raunar starfa sum þessara þrotabúa á ábyrgð þess.
Við mat á sök í málum af þessum toga þarf að horfa til saknæmisskilyrða, þ.e. ásetnings eða gáleysis við verknaðinn. Fullyrða má, að eftir 16. júní sl. á eða má fyrirsvarsmönnum þessara fjármálastofnana (sem og Fjármálaeftirlitsins) vera ljóst, að stór hluti þessara fjármálagerninga er í andstöðu við ofangreind lagaákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með því að bókfæra og innheimta engu að síður samningana skv. hinum ólögmætu gengistryggingarákvæðum, er varla hægt að horfa öðruvísi á, en að um stórfellt gáleysi, ef ekki hreinan ásetning, með auðgunartilgangi sé að ræða. Því til viðbótar má telja fullvíst að dómstólar myndu gera ríkar kröfur til stjórnenda fjármálafyrirtækjanna sem og Fjármálaeftirlitsins við sakarmat skv. framansögðu.
Í ljósi framanritaðs vill undirritaður hvetja FME til þess að grípa nú þegar inní þessa framkvæmd og stöðva án tafar þá lögleysu sem viðgengst fyrir allra augum.
Þá óskar undirritaður eftir afstöðu ábyrgðaraðila FME til ofangreinds sem allra fyrst.
Að lokum vill undirritaður fagna dreifibréfi" FME til lánastofnana frá 14. september sl., þar sem brugðist var við augljósum lögbrotum fjármögnunarfyrirtækjanna vegna meðferðar á a.m.k. einka- og fjármögnunarleigusamningum. Jafnframt upplýsa FME um að a.m.k. Lýsing hf., SP fjármögnun hf. og Íslandsbanki fjármögnun hf., hafa kosið að fara ekki að þessum tilmælum, enda hafa öll þessi fyrirtæki haldið áfram innheimtu sinni á fjármögnunarleigusamningum eins og ekkert hafi í skorist.
Efnahags- og viðskiptaráðherra, sem og dómsmálaráðherra fá afrit af erindinu í ljósi alvarleika málsins, enda má gera ráð fyrir því að það komi öðrum fremur í þeirra hlut að svara fyrir málið á opinberum vettvangi.
Virðingarfyllst,
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2010 | 12:05
Komið í veg fyrir sértæka skuldaaðlögun!
Ég þekki fjölskyldu sem á rétt á sértækri skuldaaðlögun skv. höfundum þeirra laga, skrifleg bréf þess efnis hefur starfsfólk Arion banka undir höndum en hefur ekkert gert í því máli. Fjölskylda þessi hefur þurft að búa inn á heimili ættingja sinna með 4 börn í bráðum 2 ár þar sem hún getur ekki lokið við að gera húsnæði sitt íbúðarhæft. Þess má geta að fjölskyldan var ekki með myntkörfulán og skuldin ekki veruleg en bankinn segir að þau skuldi ekki nógu mikið miðað við fasteignamat eignarinnar sem þó hefur lækkað mikið. Bankinn hefur aftur á móti boðist til að yfirtaka fasteignina á helmingi lægra verði en fasteignamatið.
Lögmaður er með mál fólksins en ekkert gerist! Hafi stjórnvöld áhuga á að vita meira um þetta mál, geta þau haft samband í síma 6943594.
Arion banki: Umtalsverður árangur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2010 | 09:48
Gjaldeyrinn fer í erlenda áhættufjárfesta!
Alltaf sama bullið, kemur ekki fólki í neyð að neinu gagni" og lendir á skattgreiðendum." Það er verið að velta áhættufjárfestingum erlendra aðila BEINT yfir á íslenska skattgreiðendur!
Tekið úr pistli í Morgunblaðinu í dag eftir Ívar Pál Jónsson.
Það var einkennilegt að sjá viðtal ríkissjónvarpsins við talsmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um daginn, þar sem hann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu lyft grettistaki" í ríkisfjármálum. Tvær mögulegar skýringar eru á slíkri yfirlýsingu. Annaðhvort er maðurinn algjörlega skyni skroppinn, eða þá að eitthvað annað en skynsemi og hlutlægni býr að baki staðhæfingunni. Nú er það svo, að ríkissjóður hefur verið rekinn með gríðarlegum halla allt frá hruni. Á árinu 2009 var hallinn 137 milljarðar króna og fyrstu átta mánuði þessa árs er hann orðinn meiri en á sama tíma á því ári, eða 71,3 milljarðar króna. Auknar álögur hafa ekki skilað þeim tekjum sem reiknisérfræðingar fjármálaráðuneytisins höfðu gert ráð fyrir, enda hefur sannast hið óumflýjanlega, að aukin skattheimta dregur úr veltu og verðmætasköpun í samfélaginu. Þessi aukna skattbyrði, gjaldeyrishöft og slæm skilyrði fyrir innlenda og erlenda fjárfestingu urðu til þess að landsframleiðsla dróst saman um rúm 7% á fyrri helmingi ársins, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hvað býr þá að baki yfirlýsingu fulltrúa AGS, um að efnahagslífið sé á réttri leið og að lyft hafi verið grettistaki í ríkisfjármálum? Hvað býr almennt að baki komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað til lands? Af hverju lánar þessi stofnun íslenska ríkinu, þegar einkaaðilar myndu ekki snerta lánveitingar hingað með hnausþykkum pottaleppum? Markmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er aðeins eitt. Herrar hans eru erlendir lánardrottnar Íslendinga. Hann beitir »lánafyrirgreiðslu« til þess að fá íslenska ríkið til að ábyrgjast skuldbindingar einkabanka í útlöndum. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda vegna fyrstu endurskoðunar hjá sjóðnum segir að ríkið skuldbindi sig til að sjá bönkum fyrir lausafé" þegar gjaldeyrishöft verði afnumin. Á mannamáli þýðir það, að búið er að breyta krónueignum útlendinga í skuldir ríkissjóðs í erlendri mynt. Þessar eignir skipta mörg hundruð milljörðum króna. Ríkið ætlar að eyða gjaldeyri sínum í að bjarga þessum erlendu fagfjárfestum, sem tóku þá óskynsamlegu ákvörðum að hætta fé sínu í vaxtamunarviðskiptum. Allt lýtur þetta að einni niðurstöðu: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er handrukkari fyrir erlenda aðila, sem telja sig eiga kröfu á íslenska ríkið, en eiga hana ekki. Þess vegna verðum við tafarlaust að slíta samstarfinu við sjóðinn. Það hefði að sjálfsögðu í för með sér að lánalínur AGS, sem nota á í að endurfjármagna erlendar skuldir á gjalddaga á næsta ári, féllu niður. Ríkissjóður yrði því að leita samninga við erlenda lánardrottna - eigendur þessara bréfa. Margt bendir þó til þess að auðveldara verði að semja við fagfjárfesta á næsta ári en AGS og önnur erlend ríki þegar að þeim skuldadögum kemur, því AGS lítur á sig sem veðtryggðan kröfuhafa og skuldir við sjóðinn fyrnast ekki.
Flöt niðurfelling skulda óskynsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- Ágúst 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júní 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2016
- Ágúst 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Nóvember 2014
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- September 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
Bloggvinir
- aslaugas
- agny
- annaeinars
- danna
- agustkara
- bookiceland
- contact
- einarborgari
- rlingr
- sagamli
- helga-eldsto-art-cafe
- bofs
- sade
- gusg
- noldrarinn
- hafthorb
- hhbe
- hlf
- diva73
- snjolfur
- ingaghall
- ingolfursigurdsson
- kreppan
- jaj
- islandsfengur
- nonniblogg
- nyja-testamentid
- thjodarskutan
- kristinnp
- loncexter
- marinogn
- sighar
- sigurduringi
- sushanta
- viggojorgens
- vilhjalmurarnason
- thorsteinnhelgi
- valli57
- tbs