Leita í fréttum mbl.is

Bréf sent FME vegna endurútreikninga bílalána

Sæll Sigurður

Þar sem útreikningar fjármögnunarfyrirtækjanna eru byggðir á tilmælum FME og SÍ frá því í lok júní, þ.e. að óverðtryggðir vextir SÍ skuli koma í stað samningsvaxta (síðar staðfest af dómstólum) óska ég eftir upplýsingum um hvernig þessir útreiknigar áttu nákvæmlega að fara fram. Þeir sem hafa fengið endurútreikninga frá SP fjármögnun eru engu nær um hvernig nýja fjárhæðin er fundin og stemmir hún ekki við þá útreikninga sem fengnir eru á t.d. sparnaður.is. Á FME ekki til dæmi um útreikning sem hægt væri að fá að sjá?


Ég vil einnig benda FME á að fjármögnunarfyrirtækin geta ekki lengur kallað samninga sína leigusamninga og bifreiðina ekki lengur „leigumun."  Hæstiréttur hefur úrskurðað að kaupleigusamningur væri lánssamningur en ekki leigusamningur. Þar af leiðandi eiga viðskiptavinir að fá afsalið fyrir bílnum. Ég hef líka bent FME áður á að fyrirtækin áttu að gefa út sölureikninga fyrir bílum og tækjum sem þeir seldu fólki, það kemur t.d. fram í lið V í kaupleigusamningum SP og lið VI í samningum Avant. Aðeins Lýsing virðist hafa afhent sölureikninga og SP gaf aðeins út nokkra, þ.e. til þeirra sem kröfðust þess að fá reikninginn skv. samningum.

Að lokum vil ég spyrja hvort það sé rétt að Avant ætli að halda áfram að innheimta en ekki að greiða til baka ofreiknaðar greiðslur. Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að viðskiptavinir fyrirtækisins voru hvattir til að halda áfram að greiða og varaðir við vanskilakostnaði og öðru sbr.tilkynningu á vef Avant 16.02.2010: „Þeir viðskiptavinir AVANT hf. sem greiða skilvíslega af gengistryggðum samningum þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir missa því engin réttindi gagnvart félaginu. Eru viðskiptavinir Avant hf. hvattir til að greiða skilvíslega af bílasamningum og forðast vanefndir enda er fyrirsjáanlegt að þær munu hafa í för með sér verulegan vanskilakostnað og óþægindi fyrir hlutaðeigandi greiðendur ef Hæstiréttur snýr við niðurstöðu héraðsdóms í framangreindu máli."

Þegar þessi tilkynning er gefin út mátti stjórn Avant og fleirum vera ljóst að fyrirtækið væri á leið í þrot.



með kveðju,

Þórdís Sigurþórsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður fróðlegt að sjá svar FME við þessu.

Geir Birgir Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 10:49

2 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Hér er svarið frá FME:

Blessuð Þórdís



Varðandi spurningu þína um útreikninga fjármögnunarfyrirtækjanna og tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans þá er því til að svara að þetta eru flóknir endurútreikningar sem taka mið af hverjum lánssamningi fyrir sig. Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og SÍ gáfu ekki frekari leiðbeiningu um endurútreikninginn en það sem í þeim stóð.



Hvað varðar spurningu þína um sölureikninga og afsöl þá er því til að svara varðandi möguleg brot á samningsskilmálum að í lánssamningum fellur slíkt undir lög nr. 121/1994 um neytendalán og annast Neytendastofa eftirlit með ákvæðum þeirra, sbr. 25. gr. laganna. Fjármálaeftirlitið bendir þér því á að hafa samband við Neytendastofu vegna þessa: http://www.neytendastofa.is/Forsida/Um-Neytendastofu



Varðandi spurningu sem varðar Avant þá hefur Fjármálaeftirlitið ekki milligöngu um að afla upplýsinga frá eftirlitsskyldum aðilum né svara fyrir hönd þeirra. Fjármálaeftirlitið bendir þér því á að hafa samband við Avant hf.



Almennt bendir Fjármálaeftirlitið á að allar ábendingar og kvartanir sem berast stofnuninni eru metnar og skoðað hvort tilefni er til nánari athugunar. Þeir sem beina erindum til Fjármálaeftirlitsins eiga ekki sjálfkrafa rétt á því að erindi þeirra verði tekið til athugunar. Ákvörðun um slíkt er ávallt í höndum Fjármálaeftirlitsins. Telji Fjármálaeftirlitið ástæðu til að taka mál til athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits, þ.e. hvort starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila sé í samræmi við lög, reglur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þrátt fyrir að kvörtun eða ábending frá einstaklingi eða lögaðila leiði til slíkrar athugunar, telst sá hinn sami ekki sjálfkrafa aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki er víst að slík athugun leiði til lausnar á úrlausnarefni hlutaðeigandi aðila.



Fjármálaeftirlitið vill benda þér á að það hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum milli neytenda og eftirlitsskyldra aðila. Það úrskurðar ekki um ágreining um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. Þau úrræði sem einstaklingum og lögaðilum standa til boða til að leita réttar síns vegna ágreinings við fjármálafyrirtæki eru úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og almennir dómstólar. Fjármálaeftirlitið vistar úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en nefndin fjallar um réttarágreining milli fjármálafyrirtækis eða dótturfyrirtæki slíks fyrirtækis annars vegar og viðskiptamanns hins vegar, enda sé samningssamband milli aðila. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga á milli landa. Nánari upplýsingar um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samþykktir hennar má finna á eftirfarandi vefsíðu Fjármálaeftirlitsins: http://www.fme.is/?PageID=585.



Bestu kveðjur





Sigurður G. Valgeirsson

Fjármálaeftirlitið / Financial Supervisory Authority, Iceland

Sími / Tel.: (+354) 520 3700

mailto: sgv@fme.is, http://www.fme.is

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 12.10.2010 kl. 16:46

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Maður spyr sig eftir lestur þessa svars; til hvers er fjármálaeftirlitið og af hverju eiga skattgreiðendur að standa straum af rekstri þess?

Væri ekki nær að ráðleggja þér að leita til Ríkisskattstjóra varðandi óútgefna reikninga frekar en Neytendastofu, úr því að maður á framfæri skattgreiðenda telur Fjármáleftirlitinu ekki koma það við að fjármálafyrirtæki fylgi ekki eðlilegum viðskiptaháttum?

Magnús Sigurðsson, 13.10.2010 kl. 17:03

4 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Við erum fyrir löngu búin að benda RSK á þetta, þeir segjast vera að „skoða málið" en eru það alls ekki. Allt batteríið er í bullandi vörn. Set svörin frá RSK inn næst, bara svo að menn geti lesið hvað skattgreiðendur eru að borga.

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 13.10.2010 kl. 18:49

5 identicon

Humm.  ég er bara leikmaður, held samt að það tæki 6-8 löglærða menn c.a. mánuð að túlka þetta svar.

Héðinn Hákonarson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband