Leita í fréttum mbl.is

Einbeittur brotavilji fjármögnunarfyrirtækjanna

Fjármögnunarfyrirtækin hafa ákveðið að halda áfram að innheimta óbreyttar greiðslur fyrir  gengistryggða rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamninga. Ákvörðunin er sögð byggja á lögfræðiáliti sem segir að ofangreindir samningar  „falli að öllum líkindum” ekki undir dóm Hæstaréttar frá 16. júní sl. sbr. upplýsingar á heimasíðu Lýsingar og SP fjármögnunar.

Engar athugasemdir eða tilmæli eru sett fram af svokölluðum eftirlitsaðilum eða Neytendasamtökunum vegna þessarar ákvörðunar og enginn tekur upp hanskann fyrir þá sem augljóslega skal halda áfram að brjóta á. Umrætt lögfræðiálit sem ekki hefur verið birt getur ekki verið annað en rökleysa.

Í dómi Hæstaréttar nr. 92/2010 þar sem málsaðilar deildu meðal annars um það hvort samningurinn væri leigusamningur eða lánssamningur (um var að ræða kaupleigusamning SP fjármögnunar) úrskurðaði Hæstiréttur að samningurinn væri lánssamningur sem „stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings.”  Horft var til þess að í samningi væri rætt um höfuðstól, eftirstöðvar, lántöku í erlendum gjaldmiðli, afborganir og fleira. Eins var í samningnum ákvæði um vexti „en slíkt tíðkast í lánssamningum og á engan veginn við í leigusamningum” segir í dómnum. Þessi atriði er meira eða minna einnig að finna í þeim samningum sem fyrirtækin segja að falli ekki undir dóminn.

Miðað við dóm Hæstaréttar eru þetta allt lánssamningar klæddir í hina ýmsu leigubúninga, allir eru þeir með höfuðstól (einnig nefnt „leigugrunnur,“ „samningsfjárhæð“ eða annað) og bera vexti (oft skráðir á bls. 2 í samningi með greiðsluáætlun). Þar af leiðandi falla samningarnir undir lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því óheimilt að binda lánsfjárhæðina við gengi erlendra gjaldmiðla.   

Í samanburðartöflu á heimasíðu SP er  talað um vaxtakjör og lánstíma allra þeirra samninga sem félagið býður upp á og eins segir á síðu félagsins að „munurinn á fjármögnunarleigu og kaupleigu felist einkum í mismunandi bókhaldslegri og skattalegri meðhöndlun, en kjör þeirra eru hin sömu.” Undir liðnum Spurningar og Svör hjá SP segir einnig berum orðum: „Einkaleiga er kaupleigusamningur “ (og kaupleigusamningur er lánssamningur skv. Hæstarétti).

Á heimasíðu Glitnis fjármögnunar er fjallað um höfuðstólslækkun fjármögnunarleigusamninga og breytingar á vaxtakjörum þeirra. Í lögfræðiorðabók og á heimasíðu SP segir einnig: „Eignaleiga er samheiti yfir kaupleigu, fjármögnunarleigu og rekstrarleigu.”  Kaupleigusamningur getur þar af leiðandi ekki verið mjög frábrugðinn fjármögnunar-og rekstrarleigusamningum.  

Merkilegt að vita til þess að eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki sem hafa gerst brotleg gagnvart þúsundum manna, stundað nótulaus viðskipti til fjölda ára, dundað sér við skjalafals (búið til nýja samninga á nafni lántakenda), notað handrukkara til að brjótast fyrir sig inn í opinberar byggingar, veitt Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um starfsemi sína (sjá nánar bloggsíðu Erlings A. Jónssonar  http://rlingr.blog.is/blog/rlingr/entry/1083050/) og fleira, fái óáreitt að halda áfram innheimtu á lánum sem dæmd hafa verið ólöglega verðtryggð af Hæstarétti.

Eftirfarandi tilkynning var birt á vef Avant 16.02.2010 og sýnir að markmiðið var að innheimta eins mikið og mögulegt var áður en fyrirtækið færi í þrot: „Þeir viðskiptavinir AVANT hf. sem greiða skilvíslega af gengistryggðum samningum þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir missa því engin réttindi gagnvart félaginu.  Eru viðskiptavinir Avant hf.  hvattir til að greiða skilvíslega af bílasamningum og forðast vanefndir enda er fyrirsjáanlegt að þær munu hafa í för með sér verulegan vanskilakostnað og óþægindi fyrir hlutaðeigandi greiðendur ef Hæstiréttur snýr við niðurstöðu héraðsdóms í framangreindu máli.” 

Eftir dóm Hæstaréttar, felldi Lýsing niður a.m.k. eitt mál sem var fjármögnunarleigusamningur og  komið var inn til dómstóla. Það hefði félagið varla gert hefði það ekki talið að dómurinn næði ekki líka til þeirra samninga.  Lýsing hefði auk þess getað haldið áfram með málið „til að eyða óvissunni eins fljótt og auðið er” eins og félagið segist vonast til sbr. tilkynningu á heimasíðu félagsins frá 23.07.2010. Á innheimtuseðlum Lýsingar fyrir fjármögnunarleigu komu fram „eftirstöðvar” en þessu hefur verið breytt á nýjustu seðlunum skv. viðskiptavini Lýsingar.

„Réttaróvissan” er tilbúningur hjá stjórnendum þessara fyrirtækja sem sérhæfa sig í ólöglegum lánveitingum og svívirðilegri starfsemi sem á ekkert skylt við viðskipti. Allir umræddir samningar eru lánssamningar sbr. skilgreiningu Hæstaréttar og falla því undir dóm hans frá 16. júní sl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það verður bara verri skellurinn hjá þeym þegar dómurinn verður staðfestur, þá verður betra fyrir þá að vera í felum gæti eg trúað, því það verður verra að endurgreyða eftir því sem meyru er stolið.

Eyjólfur G Svavarsson, 12.8.2010 kl. 18:00

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir greinargóðar útskýringar á stöðu mála.  

Anna Einarsdóttir, 16.8.2010 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband