Leita í fréttum mbl.is

Bílasamningar, tilbúin réttaróvissa

Lánastarfsemi Avant, Lýsingar og SP-fjármögnunar einkennist af réttaróvissu. Markmiðið með orðalagi samninga þessara fyrirtækja virðist vera að hafa óvissuna sem mesta.  Dómurinn frá 3. desember sl. vegna myntkörfuláns SP endurspeglar  þessa óvissu og sjálfur dómarinn flækist í óvissuvefnum.
 

Í kaupleigusamningum SP er t.d. forðast að nota hugtakið „lán“, líklega til að samningarnir falli síður undir lög um neytendalán. A.m.k. tvisvar í dómnum er vísað til „höfuðstóls leigugreiðslna.“  Þetta er markleysa. Lánsfjárhæð er með höfuðstól, leigugreiðslur ekki. Kaupandinn er skráður sem leigutaki á samningi þótt hann kaupi bifreiðina og fái lán hjá SP fyrir kaupverðinu. Bifreiðin er eign SP skv. ökutækjaskrá en eign kaupandans skv. skattframtali. Skuldbinding kaupandans er í leigugreiðslum skv. samningi en skuldin þó með höfuðstól.

Dómarinn tapar þræðinum í umfjöllun sinni sbr. þetta úr dómnum: „Umsamið kaupverð [innsk. bifreiðarinnar] er auðvitað milli kaupanda og leigutaka...“ Nei, umsamið kaupverð er milli seljanda og kaupanda/leigutaka. Kaupandi og leigutaki í þessum óvissuviðskiptum er sami aðilinn.

 

Eftirfarandi málsgrein úr dómnum sýnir að einnig þar eins og í samningunum er forðast að nota hugtakið „lán“ og í staðinn sagt „það“ og „þessu“ sbr.:  „Óskar Sindri [innsk. stefndi] hefði sótt um það í erlendri mynt og um leið og SP-fjármögnun hf. samþykkti það þá hafi verið gengið frá því að SP-fjármögnun hf. tæki lánið hjá viðskiptabanka félagsins í erlendri mynt. Síðan hafi félagið selt þessa erlendu mynt og greitt það út annar (sic) vegar  í japönskum jenum og hins vegar í svissneskum frönkum. Félagið hafi sem sagt tekið erlent lán fyrir þessu hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbanka Íslands. Selt síðan erlendu myntina fyrir íslenskar krónur og greitt þær seljanda bifreiðarinnar, Nýju Bílahöllinni.“

 

Þarna umorðar dómarinn frásögn Kjartans framkvæmdastjóra SP en tapar aftur þræðinum og segir þá allt annað en í setningunni sem hann er að umorðra.  Hvort var nú greitt út í jenum og frönkum eða í íslenskum krónum? Og hver fékk greitt út í jenum og frönkum, Óskar eða Nýja Bílahöllin?  Ef SP tók lánið í jenum og frönkum frá Landsbankanum hefði SP ekki þurft að selja jenin og frankana til að greiða út í jenum og frönkum, því eins og fram kemur í dómnum segir Kjartan: „Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum.“  Skv. þessari formúlu tók SP lán í japönskum jenum og svissneskum frönkum frá Landsbankanum fyrir láni Óskars. Því þurfti SP ekki að selja jenin og frankana til að greiða út í jenum og frönkum. Hér virðist dómarinn ekki hafa skilið eðli málsins þar sem hann gerir ekki grein fyrir  því hvort greitt hafi verið út í erlendri eða íslenskri mynt. Niðurstaða dómsins veltur þó m.a. á þessu atriði.

 

Dómarinn notar þó einstöku sinnum orðin „lán“ sbr. t.d.: „Ætla verður að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum...“, „Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla.“ Ákvæðið á við um lánsfé og erlenda gjaldmiðla og á því ekki við um skuldbindingu Óskars sem er skv. dómkröfum SP byggð á  „höfuðstól leigugreiðslna“ og bundin við gengi myntkörfunnar BL2 skv. samningi. Leiga er ekki lán og BL2 er ekki erlendur gjaldmiðill.  

„Ekki veldur sá er varar er almennt talið“ þylur dómarinn upp undir lokin.  Engin íslensk lög ná yfir þessa þvælu og því er skiljanlegt að dómarinn reyni að styðja mál sitt með málshætti frekar en lagatilvísunum. Málshátturinn á að sýna fram á að Óskari mátti vera ljóst að viðskiptin við SP væru áhættusöm og vísar dómarinn í skilmála samnings er segir:  „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinni að hann geri sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum...“  Skilmálinn er líka rugl. 
 Fyrst Óskar skuldar „höfuðstóls leigugreiðslu“  skiptir engu máli þótt hann hafi undirritað skilmála sem segir að lántaka í erlendum gjaldmiðli sé áhættusamara en eitthvað annað. Óskar skrifar hvergi undir að hann geri sér grein fyrir því að leigugreiðslur bundnar við gengi BL2 væru áhættusamari en eitthvað annað.“  Í samningi stendur: „Endanleg fjárhæð í myntkörfunni BL2 ræðst af kaupgengi á útgreiðsludegi samnings“ og „leiga miðast við myntkörfuna BL2 og ræðst af sölugengi hverju sinni.“  Skuld Óskars ætti samkvæmt þessu ekki að vera gengistryggð því að BL2 hefur aldrei verið skráð með gengi. Myntkarfan BL2 er ekki einu sinni myntkarfa skv. skriflegum upplýsingum frá SP. (Myntkarfan SP5 er með gengisskráningu á heimasíðu SP en hún er ólöglegur fjármálagjörningur og SP5 lán því ekki gengistryggð).

Dómurinn er markleysa og byggist t.d. ekki á gögnum um gjaldeyrisviðskipti heldur á því sem framkvæmdastjóri SP segir. Í niðurstöðu dómsins stendur 14 sinnum „Kjartan segir." Málið hefði ekki þurft að fara til dómstóla, nóg hefði verið að Kjartan sem er stefnandi í málinu, sendi út yfirlýsingu um að alíslensku okurlánin hans væru lögleg.

(Birt í Morgunblaðinu 9.mars 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa grein. Ég var að lesa hana í Mbl. áðan. Hún er öldungis frábær. Auðvitað verður hún nokkuð tyrfin - það gerir efnið - á stundum. En eftir stendur: Þessi dómur er undarlegt samsull og ruglingur, dómarinn fer eins og köttur í kringum heitan graut og kemst að einhverju sem er bull - eins og að var stefnt.

Vonandi lesa þetta sem flestir.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 10:32

2 identicon

Aldeilis fín greining hjá þér Þórdís. Ég vil fá að bæta við þetta að skv. upplýsingum frá FME, felur starfsleyfi SP skv. lögum númer 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þetta í sér:

Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi í formi skuldaviðurkenninga, sbr. b-liður 1. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.

Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, sbr. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.

Eignarleigustarfsemi sem aðalstarfsemi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. fftl.

Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, annarra en innlána, sbr. 1. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.

Útlánastarfsemi, sbr. a-d liður 2. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.

Fjármögnunarleiga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl.

Takið eftir að 7. tl. 20. gr. er ekki upptalinn en hann hljóðar svo:

7. Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:

a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),

b. erlendan gjaldeyri,

c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),

d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og

e. verðbréf.

Skv. þessu get ég ekki séð annað en SP hafi ekki leyfi til gjaldeyrisviðskipta í sínu starfsleyfi og getur þannig ekki skipt gjaldeyri fyrir sinn reikning eða viðskiptamenn sína sbr. b-lið 7.töluliðar lagana. Gjaldeyrisviðskipti er jú sá gjörningur að skipta innlendum gjaldmiðli í erlendan og öfugt. Einnig hefur SP ekki leyfi til viðskipta með framvirka samninga sbr. c-lið 7. töluliðar sömu laga, en skv. ársskýrslu 2007 notaði SP framvirka gjaldmiðlasamninga til að verja sig fyrir gengisáhættu. En af hverju þurfa þeir að verja sig gengisáhættu þegar umtalsverður fjöldi útlána og lántöku félagsins er gengisbundinn skv. sömu ársskýrslu? Er ekki sú gengishætta hjá viðskiptamönnum SP skv. þeirra eigin rökum?? Að þessu sögðu vaknar sú spurning, hvort að SP geti yfirhöfuð fjármagnað sig með erlendum lánum ef þeir geta ekki átt viðskipti með erlendan gjaldeyri? En svo kemur toppurinn á öllu saman, d-liður 7.töluliðar ofangreindra laga tiltekur: gengisbundin bréf, og þar sem 7. töluliður er ekki upptalinn í starfsleyfinu, getur þá SP yfirhöfuð haft gengisbundin bréf eða “erlend lán/myntkörfulán”, (bílalán, bílasamninga, o.s.frv.) til boða til viðskiptamanna sinna? Ég held ekki! Hvar er FME?!!

erlingur (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 13:39

3 identicon

Takk Erlingur, enn eitt lagabrotið og ef þú lest dóminn að þá eru þeir í bullandi gjaldeyrisviðskiptum í mánuði hverjum, selja krónurnar sem fólk borgar af lánunum með og kaupa fyrir þær gjaldeyri til að borga Landsbankanum til baka:) ...en þeir geta ekki sent manni sundurliðað yfirlit yfir gjaldmiðlana sem maður skuldar.

Þórdís (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 16:25

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir baráttuna.

Á heimasíðu SP Fjármögnunar tala þeir sjálfir um LÁN.

"Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar um myntkörfulán sem féll föstudaginn 12. febrúar sl. mun ekki hafa áhrif á meðhöndlun erlendra lána hjá SP–Fjármögnun. "

Sjá hér.  http://spfjarmognun.is/article.aspx?ArtId=21&catID=20

Anna Einarsdóttir, 10.3.2010 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband