Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Hvað breytist með mindfulness-iðkun?

Hugleiðsluhátíðin Friðsæld í febrúar stendur yfir þessa dagana þar sem tilgangurinn er að vekja áhuga á hugleiðslu. Mindfulness (núvitund, gjörhygli) er ein tegund hugleiðslu og hefur notið mikilla vinsælda. Iðkunin á rætur að rekja til Austurlanda, nánar tiltekið til búddískra fræða. Fræðin eru nokkurs konar hugarvísindi og helsta markmiðið er að skoða, temja og kyrra hugann. Hér á Vesturlöndum er iðkunin oft kynnt sem aðferð til að efla einbeitingu, öðlast hugarró, draga úr streitu og kvíða, vera til staðar hér og nú o.s.frv. Þetta er allt rétt en hvað þýðir þetta á einföldu máli? Hvað breytist við þessa hugarþjálfun og hvers vegna losnar oft um kvíða?

Alla jafna erum við ómeðvituð um það hvernig hugurinn virkar, hvaða áhrif hugsanir hafa á líðan okkar og hvernig við hneigjumst til að sjá hugsanir sem raunveruleg og sönn fyrirbæri. Þar af leiðandi fylgjum við hugsunum eftir án frekari skoðunar því segja má að við trúum þeim. Hugsun sem veldur kvíða skýtur til dæmis upp kollinum og án þess að hika verðum við kvíðin. Við tökum mark á hugsuninni því hún er raunveruleg. Eða hvað?

Þegar við stundum mindfulness æfum við okkur í að vera vakandi fyrir því hvernig hugurinn starfar, hvaða áhrif hugsanir hafa á okkur og hvernig trúin á hugsanir gefur þeim aukinn kraft. Markmiðið með iðkuninni er meðal annars að uppgötva að hugsanir lifa ekki sjálfstæðu lífi heldur veltur tilvist þeirra á athyglinni sem þær fá.

Með hugleiðslu æfum við okkur í að færa athyglina frá hugsunum og yfir á andardráttinn. Þegar hugsanir gera vart við sig segjum við: „Þetta er hugsun“ og færum athyglina að andardrættinum. Aftur og aftur, þó ekki af neinni hörku heldur af vinsemd. Eftir nokkra þjálfun dveljum við ósjálfrátt minna við hugsanir en meira við andardráttinn eða aðra staði í líkamanum. Þar með kyrrist hugurinn og athyglin er oftar við það sem við erum að gera hverju sinni, núlíðandi stund. Hugsunin/tilfinningin (ekki svo mikill greinarmunur gerður þar á) sem veldur kvíða skýtur annað slagið upp kollinum en nú hikum við, færum athyglina að andardrættinum og kvíðinn minnkar eða hverfur. Þegar hér er komið öðlumst við líka ákveðið innsæi, við sjáum að hugsunin sem veldur kvíðanum er ekki raunveruleg. Ef við trúum ekki hugsuninni er allur kraftur úr henni og hún hættir að sækja á okkur. Við getum sagt að hugsunin gefist upp þar sem hún fær enga athygli.

Kvíði er hér tekinn sem dæmi en þetta á að sjálfsögðu við um margt annað. Hvers konar fíkn eða stjórnleysi á rót sína að rekja til sömu ástæðu; tilhneigingu okkar til að sjá hugsanir sem einhvers konar sannleika sem þarf að fylgja eftir. Og oft verður úr vítahringur. Með þjálfun í mindfulness venjum við okkur á að staldra við og sjáum fljótlega að áhrifamáttur hugsana er, þegar allt kemur til alls, ekki næstum eins mikill og við áður héldum.

Í stuttu máli: Áður en við ástundum mindfulness „tökum við þátt“ í hugsunum okkar, oft af fullum krafti, og festum okkur í þeim. Með þjálfun í mindfulness verðum við meira eins og áhorfendur. Við lærum að sjá hugsanir sem óraunverulegar og horfa á þær úr ákveðinni fjarlægð. Þannig missa þær kraft sinn og vald.

Höfundur er með MA-gráðu í búddískum fræðum og er framkvæmdastjóri Mindfulness-miðstöðvarinnar. (Birt í Morgunblaðinu 9.feb.2016).


Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband