Ég hef áður fjallað um nótulaus viðskipti fjármögnunarfyrirtækjanna og haldið því fram að þau hafi stungið undan milljörðum í virðisaukaskatt.
Viðskiptavinur Avant sendi nýlega kvörtun til Neytendastofu yfir að hafa ekki fengið sölunótu fyrir bílnum sem átti að fylgja með samningnum (sjá lið lV) en gerði ekki. Avant svaraði erindinu á þá leið að það hefðu verið mistök að gefa ekki út reikninga enda komi allar nauðsynlegar upplýsingar fram í samningnum sjálfum. Sjá bréf. Í bréfi Avant, segir lögfræðingur fyrirtækisins einnig að skoðað hefði verið (þegar mistökin uppgötvuðust) að gefa út reikninga eftir á í samráði við skattyfirvöld enda höfðu skattskil byggst á lánsamningunum að efni til og reikningurinn einungis leiðrétting á formi. Neytendastofa kallaði eftir svari frá ríkisskattstjóra við þessari staðhæfingu Avant og segir ríkisskattstjóri í bréfi sínu m.a. :
Í meðfylgjandi bréfi frá Avant hf. til Neytendastofu, dags. 20.apríl 2010, kemur fram að haft hafi verið samráð við skattyfirvöld í tilefni handvammar sem orðið hafði hjá félaginu við útgáfu sölureikninga. Því er til að svara að ríkisskattstjóri kannast ekki við nein samskipti við Avant hf. vegna þessa og er ekki að finna nein formleg samskipti við félagið í málaskráningarkerfi embættisins af þessu tilefni. Sem sagt, tóm lygi! Sá sem sendi Neytendastofu kvörtunina svaraði útskýringum Avant með því að biðja fyrirtækið um að sýna fram á að skattskil hafi farið fram skv. samningnum eins og lögfræðingur Avant hélt fram í bréfi sínu. Það gat lögfræðingurinn ekki.
Fyrir skömmu komst ég í samband við fyrrverandi starfsmann Avant sem las yfir samskipti fyrirtækisins við Neytendastofu. Sagði hann m.a. að það hefðu ekki verið nein mistök að gefa ekki út reikninga og einnig að það væri ekki hægt að standa skil á virðisaukaskatti skv. lánssamningum Avant! Neytendastofa sem neitaði í fyrstu að taka málið til athugunar ætlar þó ekki úrskurða í málinu, segist ekki geta aðhafst frekar. Þó er um að ræða augljóst samningsbrot, það vantar reikninginn sem sagður var fylgiskjal með samningnum, fylgiskjal sem neytandinn átti að fá þegar viðskiptin fóru fram.
Ath. viðskiptavinurinn greiðir virðisaukaskattinn til fjármögnunarfyrirtækisins þegar keyptir eru nýir bílar á kaupleigu. Fjármögnunarfyrirtækið gefur ekki út sölunótu og stendur því ekki skil á skattinum í ríkissjóð. Fyrirtækin innsköttuðu virðisaukann á nýjum bílum sem þau keyptu af bílaumboðunum skv. upplýsingum frá embætti Skattrannsóknarstjóra. Sem sagt, þau hirða innskattinn en greiða ekki útskattinn sem þau rukka viðskiptavinina um og það með vöxtum. En kerfið mun ekkert gera, það má ekki rugga bátnum. Kröfuhafar eiga kröfurnar, þar á meðal stolna skattinn, þess vegna heyrist ekkert frá ríkisskattstjóra og/eða skattrannsóknarstjóra vegna málsins. Þeir reyna ekki einu sinni að mótmæla því sem ég hef birt í fjölmiðlum, um að skattinum hafi líklega verið stungið undan.
Endurskoðandi frá ríkisskattstjóra hafði þó samband og sagðist vera jafn áhugasamur og við um að skoða þessi mál. Hann fékk fullt af gögnum frá mér en ekkert hefur heyrst frá honum síðan. Það er dýrt fyrir skattborgara landsins að vera með helling af sérfræðingum á launum hjá ríkinu sem virðast neyðast til að standa vörð um fjármuni kröfuhafa fjármálastofnanna en eru þó ráðnir til að standa vörð um almannafé og hafa eftirlit með að fjármálafyrirtækin fari að lögum. Hafa skal í huga að meðvirkni og aðgerðarleysi sem þetta getur verið efnahagsbrot.
Enginn (nema stjórnendur fjármögnunarfyrirtækjanna) trúir því að skatti hafi verið skilað þegar fyrir mistök engir reikningar voru gefnir út. Og a.m.k. þrjú af fjórum bílalánafyrirtækjum (Avant, SP og Íslandsbanki fjármögnun) voru samtaka í að gera sömu mistökin.
Avant er nú hluti af Landsbankanum.