Leita í fréttum mbl.is

Bréf lögmanns til FME vegna gengistryggðra lána

Bréf þetta var sent til FME af lögmanni vegna innheimtugaðgerða fjármálafyrirtækjanna.

Sæll Sigurður.

Ég vísa til samtals okkar fyrr í dag og ítreka þakkir fyrir að svara skilaboðum mínum frá því í morgun.

Núverandi háttsemi bankanna við innheimtu gengistryggðra lánasamninga er að mati undirritaðs með miklum ólíkindum.  Allir stóru bankanna, auk BYRs, Dróma, þortabús Frjálsa fjárfestingabankans og annarra þeirra er hafa gengistryggð lán í eignasafni sínu, innheimta þessa samninga algerlega án tillits til niðurstaðna Hæstaréttar Íslands frá 16. júní sl.  Það er hreinlega eins og þessir aðilar sem þarna stjórna, hafi alls ekki heyrt af því að Hæstiréttur Íslands er búinn að staðfesta ólögmæti gengistryggingar krónulána, skv. 13. sbr. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Þessi fjármálafyrirtæki, sem öll starfa skv. starfsleyfi frá FME og sum raunar á ábyrgð stofnunarinnar, halda áfram að innheimta þessi lán af fullum þunga, án þess að horfa neitt til þess að mörg þeirra eru klárlega með ólögmætum gengistryggingarákvæðum.  Það er verið að hóta fólki og fyrirtækjum, bjóða upp fasteignir, gera árangurslaus fjárnám og gera fyrirtæki og einstaklinga gjaldþrota, allt á grundvelli útreikninga sem ekki fást staðist íslensk lög!

Nokkrir af mínum umbjóðendum hafa þegar kært þessa háttsemi til lögreglu og þá um leið Fjármálaeftirlitið fyrir hlutdeild í þessum brotum, en þessi háttsemi fer fram með fullri vitund og í sumum tilvikum a.m.k. einnig á ábyrgð stofnunarinnar.  Fjársvikaákvæði Almennra hegningarlaga nr, 19/1940 er eftirfarandi:

248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.

Telja verður verulegar líkur á því að ofangreint framferði þessara fjármálafyrirtækja og ábyrgðarmanna þeirra sé brot á framangreindu ákvæði hegningarlaganna.

Þá segir einnig í hegningarlögunum í kaflanum um skjalabrot:

155. gr. Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.
[Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.]1)
Hafi aðeins verið um lítilræði að tefla, eða miklar málsbætur eru að öðru leyti, einkum ef fremjandi hefur ekki ætlað að baka öðrum tjón, má beita [fangelsi allt að 1 ári]
2) eða sektum.
   
1)L. 30/1998, 1. gr. 2)L. 82/1998, 72. gr.
156. gr. Sömu refsingu, sem í 155. gr. getur, skal sá sæta, sem notar skjal með ófalsaðri undirritun, til þess að blekkja með því í lögskiptum, enda hafi útgefandi þess verið gabbaður til að undirrita skjalið í þeirri trú, að það væri annað skjal eða skjal með öðru efni.

Leiða má líkum að því, að þessi háttsemi fyrirtækjanna og stjórnenda þeirra, brjóti einnig gegn 156. grein laganna, enda verður að telja að um augljósar blekkingar um raunverulegt efni þessara skjala.  Við fjársvikum liggur allt að 6 ára fangelsi, en við síðara skjalabrotinu allt að 8 ára fangelsi.  Ljóst má vera að það myndi horfa til refsiþyngingar, að brotin eru framin gegn almenningi/neytendum í leyfisskyldri fjármálastarfsemi sem á að vera undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og raunar starfa sum þessara þrotabúa á ábyrgð þess.

Við mat á sök í málum af þessum toga þarf að horfa til saknæmisskilyrða, þ.e. ásetnings eða gáleysis við verknaðinn.  Fullyrða má, að eftir 16. júní sl. á eða má fyrirsvarsmönnum þessara fjármálastofnana (sem og Fjármálaeftirlitsins) vera ljóst, að stór hluti þessara fjármálagerninga er í andstöðu við ofangreind lagaákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Með því að bókfæra og innheimta engu að síður samningana skv. hinum ólögmætu gengistryggingarákvæðum, er varla hægt að horfa öðruvísi á, en að um stórfellt gáleysi, ef ekki hreinan ásetning, með auðgunartilgangi sé að ræða.  Því til viðbótar má telja fullvíst að dómstólar myndu gera ríkar kröfur til stjórnenda fjármálafyrirtækjanna sem og Fjármálaeftirlitsins við sakarmat skv. framansögðu.

Í ljósi framanritaðs vill undirritaður hvetja FME til þess að grípa nú þegar inní þessa framkvæmd og stöðva án tafar þá lögleysu sem viðgengst fyrir allra augum.

Þá óskar undirritaður eftir afstöðu ábyrgðaraðila FME til ofangreinds sem allra fyrst.

Að lokum vill undirritaður fagna „dreifibréfi" FME til lánastofnana frá 14. september sl., þar sem brugðist var við augljósum lögbrotum fjármögnunarfyrirtækjanna vegna meðferðar á a.m.k. einka- og fjármögnunarleigusamningum.  Jafnframt upplýsa FME um að a.m.k. Lýsing hf., SP fjármögnun hf. og Íslandsbanki fjármögnun hf., hafa kosið að fara ekki að þessum tilmælum, enda hafa öll þessi fyrirtæki haldið áfram innheimtu sinni á fjármögnunarleigusamningum eins og ekkert hafi í skorist.

Efnahags- og viðskiptaráðherra, sem og dómsmálaráðherra fá afrit af erindinu í ljósi alvarleika málsins, enda má gera ráð fyrir því að það komi öðrum fremur í þeirra hlut að svara fyrir málið á opinberum vettvangi.


Virðingarfyllst,

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þórdís gaman væri að fá að sjá svarið þegar það kemur. kv Báskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 7.10.2010 kl. 14:59

2 identicon

hvernig skildu þeir nú ljúga sig frá þessu, væntanlega með orðunum;" við töldum, okkur sýndist og við héldum, eða við töldum" og endanlega segja þeir "sorry folks, við gerum þetta  ALDREI aftur"

Sigurjón Símonarson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 12:00

3 identicon

Þeir láta sér ekki segjast þessir andsk.. dónar, heldur halda áfram eins og að allt sé við það sama og fyrir úrskurð Hæstaréttar, þetta er alveg með ólíkindum.

Geir Birgir Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband