Leita í fréttum mbl.is

Ekki bara ólögmæt trygging heldur skipulögð fjársvik!

Bílalánin - skipulögð svik 

Eins og fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis hófu stjórnendur íslensku bankanna að flytja gengisáhættu frá bönkunum yfir á lántakendur u.þ.b. tveimur árum fyrir bankahrun vegna mikilla skulda bankanna í erlendri mynt. Þetta var gert með aukinni lánveitingu til almennings í „erlendri" mynt. Á þessum tíma, þ.e. þegar ljóst var að bankarnir voru komnir í veruleg vandræði vegna mikilla erlendra skulda voru fjármögnunarfyrirtækin (sem voru í eigu bankanna, Exista og Sjóvá) á fullu að markaðssetja bílakaupleigusamninga í „erlendri" mynt sem voru óuppsegjanlegir af hálfu leigutaka. Það er sérstaklega tekið fram í smáa letrinu að leigusamningarnir (eru ýmist lána- eða leigusamningar, eftir því hvað hentar fyrirtækjunum betur hverju sinni, e.k. lánaleigusamningar) séu óuppsegjanlegir og að vörslusvipta megi ökutæki án atbeina sýslumanns, nokkuð sem afar fáir lögmenn vilja meina að standist lög.

Einnig kemur fram í smáa letrinu að fyrirtækin hafi óskoraðan aðgang að heimili og starfsstöð leigutaka. Kaupleigusamningunum er ekki þinglýst og því er lánið ekki með veði í bifreiðinni heldur eru lántakendur í sjálfskuldarábyrgð. Þeir sem ekki voru fasteignaeigendur þurftu nánast undantekningalaust ábyrgðarmann sem var fasteignareigandi.

Þegar þessi atriði eru skoðuð er allt sem bendir til þess að stjórnendur fjármögnunarfyrirtækjanna og/eða tengdir aðilar hafi vitað að verðmæti bílsins myndi aldrei duga fyrir skuldinni og því þurfti fasteignareiganda sem ábyrgðarmann og skilmála í samningi um að vörslusvipta mætti ökutæki án dóms og laga. Þinglýsing hefði veitt kaupleigutaka aukinn rétt en ástæðan sem gefin var fyrir því að samningum var ekki þinglýst, var sú að ekki þyrfti að greiða stimpilgjöld. Einnig er athyglisverð sú staðreynd að lánasamsetning allra fjármögnunarfyrirtækjanna frá lokum árs 2006 og allt árið 2007 var nær undantekningalaust bundin við gengi japanska jensins (JPY) og svissneska frankans (CHF). Þetta voru áhættusömustu gjaldmiðlarnir og mest notaðir í vaxtamunaviðskiptum (e. carry trade) um heim allan af bröskurum til að fjárfesta í hávaxtagjaldmiðlum eða öðru sem bar hærri vexti ( t.d. íslensk jöklabréf.)

Allt frá árinu 2006 áttu íslensku bankarnir í erfiðleikum með að endurfjármagna sig á erlendum mörkuðum og alþjóðleg fjármálakrísa hófst síðan sumarið 2007. Því vissu fyrirtækin að gengi JPY og CHF myndi hækka mest gagnvart hávaxtagjaldmiðlum, þar á meðal íslensku krónunni. Þessu mætti líkja við að selja almenningi hlutabréf þar sem seljandi, ólíkt kaupanda, hafði upplýsingar um að gengi hlutabréfanna myndi hríðfalla innan skamms (og jafnvel að seljandi myndi taka stöðu gegn hlutabréfunum).

Þess má einnig geta að myntkörfurnar eru samsett „mynt" þar sem erlenda myntin sem sterkust er hverju sinni gagnvart krónunni vegur ávallt hlutfallslega þyngst í körfunni og er því skuldaranum alltaf eins óhagstæð og hún getur verið. Á samningum var látið líta út fyrir að lánþegi væri að fá ákveðin prósentuhlutföll í erlendum gjaldmiðlum en í raun var um að ræða gervigjaldmiðil (mynteiningar) með kaup- og sölugengi.

Eins og áður er getið eru leigusamningarnir óuppsegjanlegir og ef leigutaki getur ekki eða vill ekki greiða meira af láninu fer fram vörslusvipting framkvæmd af handrukkurum (sem einnig taka að sér að hóta skuldurum og rukka fyrir hönd fyrirtækjanna) og síðan uppgjör. Verðmæti bílsins er vanmetið og dregið frá höfuðstóli lánsins og ímynduðum viðgerða- og varahlutakostnaði bætt ofan á. Sem sagt, ofan á stökkbreyttan höfuðstól ólögmæta lánsins er bætt ímynduðum kostnaði til að svíkja enn meira fé af lánþegum og/eða ábyrgðarmönnum þeirra.

Í úttekt Seðlabanka Íslands frá því í apríl sl. er talað um að vanda þúsunda heimila megi rekja til bílalána. Þetta er brenglað og varasamt viðhorf og ber vott um máttleysi gagnvart siðlausum fjámálamönnum. Heimilin skulda ekki þessar fjárhæðir. Um er að ræða skipulögð fjársvik og á að meðhöndla sem slík. Það eru fjármögnunarfyrirtækin sem skulda heimilunum verulegar fjárhæðir í skaðabætur. Þau vissu hvað þau voru að gera og vissu einnig að ólögmætt væri að lána íslenskar kr. með bindingu við erlenda gjaldmiðla sbr. bréf framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja frá 24. apríl 2001 til efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þar sem hann útskýrir fyrir nefndinni að bannað sé að tengja lán í íslenskum kr. við erlenda mynt. Eins er líklegt að fyrirtækin skuldi hinum almenna skattborgara fé þar sem a.m.k. Avant og SP Fjármögnun „gleymdu" að gefa út þúsundir sölureikninga vegna bifreiða sem þau seldu á kaupleigu. Reikningarnir áttu að vera fylgiskjal með samningi sbr. lið V í SP samningum og lið IV í Avant-samningum.

Í uppgjörum eru lánþegar einnig rukkaðir um virðisaukaskatt ofan á ímyndaðan viðgerða- og varahlutakostnað. Á bak við þessar fjárhæðir eru engir reikningar og því ólíklegt að þessum skatti sem innheimtur hefur verið af lánþegum hafi verið skilað til Skattsins.

(Birt í Morgunblaðinu 8.júní 2010)


mbl.is Gengistryggingin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband