Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Bílalánin - skipulögð svik

Eins og fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis hófu stjórnendur íslensku bankanna að flytja gengisáhættu frá bönkunum yfir á lántakendur u.þ.b. tveimur árum fyrir bankahrun vegna mikilla skulda bankanna í erlendri mynt. Þetta var gert með aukinni lánveitingu til almennings í „erlendri" mynt. Á þessum tíma, þ.e. þegar ljóst var að bankarnir voru komnir í veruleg vandræði vegna mikilla erlendra skulda voru fjármögnunarfyrirtækin (sem voru í eigu bankanna, Exista og Sjóvá) á fullu að markaðssetja bílakaupleigusamninga í „erlendri" mynt sem voru óuppsegjanlegir af hálfu leigutaka. Það er sérstaklega tekið fram í smáa letrinu að leigusamningarnir (eru ýmist lána- eða leigusamningar, eftir því hvað hentar fyrirtækjunum betur hverju sinni, e.k. lánaleigusamningar) séu óuppsegjanlegir og að vörslusvipta megi ökutæki án atbeina sýslumanns, nokkuð sem afar fáir lögmenn vilja meina að standist lög.

Einnig kemur fram í smáa letrinu að fyrirtækin hafi óskoraðan aðgang að heimili og starfsstöð leigutaka. Kaupleigusamningunum er ekki þinglýst og því er lánið ekki með veði í bifreiðinni heldur eru lántakendur í sjálfskuldarábyrgð. Þeir sem ekki voru fasteignaeigendur þurftu nánast undantekningalaust ábyrgðarmann sem var fasteignareigandi.

Þegar þessi atriði eru skoðuð er allt sem bendir til þess að stjórnendur fjármögnunarfyrirtækjanna og/eða tengdir aðilar hafi vitað að verðmæti bílsins myndi aldrei duga fyrir skuldinni og því þurfti fasteignareiganda sem ábyrgðarmann og skilmála í samningi um að vörslusvipta mætti ökutæki án dóms og laga. Þinglýsing hefði veitt kaupleigutaka aukinn rétt en ástæðan sem gefin var fyrir því að samningum var ekki þinglýst, var sú að ekki þyrfti að greiða stimpilgjöld. Einnig er athyglisverð sú staðreynd að lánasamsetning allra fjármögnunarfyrirtækjanna frá lokum árs 2006 og allt árið 2007 var nær undantekningalaust bundin við gengi japanska jensins (JPY) og svissneska frankans (CHF). Þetta voru áhættusömustu gjaldmiðlarnir og mest notaðir í vaxtamunaviðskiptum (e. carry trade) um heim allan af bröskurum til að fjárfesta í hávaxtagjaldmiðlum eða öðru sem bar hærri vexti ( t.d. íslensk jöklabréf.)

Allt frá árinu 2006 áttu íslensku bankarnir í erfiðleikum með að endurfjármagna sig á erlendum mörkuðum og alþjóðleg fjármálakrísa hófst síðan sumarið 2007. Því vissu fyrirtækin að gengi JPY og CHF myndi hækka mest gagnvart hávaxtagjaldmiðlum, þar á meðal íslensku krónunni. Þessu mætti líkja við að selja almenningi hlutabréf þar sem seljandi, ólíkt kaupanda, hafði upplýsingar um að gengi hlutabréfanna myndi hríðfalla innan skamms (og jafnvel að seljandi myndi taka stöðu gegn hlutabréfunum).

Þess má einnig geta að myntkörfurnar eru samsett „mynt" þar sem erlenda myntin sem sterkust er hverju sinni gagnvart krónunni vegur ávallt hlutfallslega þyngst í körfunni og er því skuldaranum alltaf eins óhagstæð og hún getur verið. Á samningum var látið líta út fyrir að lánþegi væri að fá ákveðin prósentuhlutföll í erlendum gjaldmiðlum en í raun var um að ræða gervigjaldmiðil (mynteiningar) með kaup- og sölugengi.

Eins og áður er getið eru leigusamningarnir óuppsegjanlegir og ef leigutaki getur ekki eða vill ekki greiða meira af láninu fer fram vörslusvipting framkvæmd af handrukkurum (sem einnig taka að sér að hóta skuldurum og rukka fyrir hönd fyrirtækjanna) og síðan uppgjör. Verðmæti bílsins er vanmetið og dregið frá höfuðstóli lánsins og ímynduðum viðgerða- og varahlutakostnaði bætt ofan á. Sem sagt, ofan á stökkbreyttan höfuðstól ólögmæta lánsins er bætt ímynduðum kostnaði til að svíkja enn meira fé af lánþegum og/eða ábyrgðarmönnum þeirra.

Í úttekt Seðlabanka Íslands frá því í apríl sl. er talað um að vanda þúsunda heimila megi rekja til bílalána. Þetta er brenglað og varasamt viðhorf og ber vott um máttleysi gagnvart siðlausum fjámálamönnum. Heimilin skulda ekki þessar fjárhæðir. Um er að ræða skipulögð fjársvik og á að meðhöndla sem slík. Það eru fjármögnunarfyrirtækin sem skulda heimilunum verulegar fjárhæðir í skaðabætur. Þau vissu hvað þau voru að gera og vissu einnig að ólögmætt væri að lána íslenskar kr. með bindingu við erlenda gjaldmiðla sbr. bréf framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja frá 24. apríl 2001 til efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þar sem hann útskýrir fyrir nefndinni að bannað sé að tengja lán í íslenskum kr. við erlenda mynt. Eins er líklegt að fyrirtækin skuldi hinum almenna skattborgara fé þar sem a.m.k. Avant og SP Fjármögnun „gleymdu" að gefa út þúsundir sölureikninga vegna bifreiða sem þau seldu á kaupleigu. Reikningarnir áttu að vera fylgiskjal með samningi sbr. lið V í SP samningum og lið IV í Avant-samningum.

Í uppgjörum eru lánþegar einnig rukkaðir um virðisaukaskatt ofan á ímyndaðan viðgerða- og varahlutakostnað. Á bak við þessar fjárhæðir eru engir reikningar og því ólíklegt að þessum skatti sem innheimtur hefur verið af lánþegum hafi verið skilað til Skattsins.

(Birt í Morgunblaðinu 8.júní 2010)


Bókhaldsbrot fjármögnunarfyrirtækjanna

Á bílasamningum/kaupleigusamningum SP Fjármögnunar og Avant kemur fram að sölureikningur sé fylgiskjal. Einstaklingar sem keyptu bifreiðar á kaupleigu af þessum fyrirtækjum könnuðust þó ekki við að hafa fengið skjalið. Þegar að gengið hafði verið eftir  því við fyrirtækin í margar vikur að fá sölureikningana kom í ljós að þeir höfðu aldrei verið gefnir út. Avant svaraði ekki beiðnum um reikninga en SP gaf að lokum út nokkra reikninga, dagsetta í mars 2010, á þá sem höfðu sent inn beiðnir, ekki aðra. Lögmaður SP þakkaði fyrir réttilega ábendingu um villu.  (Lýsing virðist hafa gefið út sölureikninga en óljóst með Íslandsbanka Fjármögnun).

Þegar fjármögnunarfyrirtækin kaupa bifreiðar af bílaumboðum fá þau sölureikning frá bílaumboðinu. Sé bifreiðin ónotuð er virðisaukaskattur tilgreindur á reikningi og reiknast sem útskattur hjá bílaumboðinu en innskattur hjá fjármögnunarfyrirtækinu. Þegar fjármögnunarfyrirtækið selur síðan bílinn til einstaklinga eða fyrirtækja á kaupleigu, á fjármögnunarfyrirtækið að gefa út sölureikning á kaupanda/leigutaka og ef bíllin er ónotaður er vsk. tilgreindur á sölureikningi og reiknast sem útskattur á fyrirtækið.  Avant og SP vissu að gefa átti út reikninga enda er skráð á  kaupleigusamninga að reikningur sé fylgiskjal (sjá lið IV í Avant samningum og lið V í SP samningum).

Þegar reikninga fyrir seldri þjónustu eða varningi vantar í bókhald eins og að framan greinir hljóta menn að spyrja hvort um skattsvik sé að ræða. Var útskatturinn greiddur þrátt fyrir reikningsleysið? Hafa skal í huga að margir lántakendur fengu gengistryggð lán fyrir öllu kaupverði bifreiðarinnar (með vsk.) og eru þar af leiðandi að greiða (eða hafa þegar greitt) fjármögnunarfyrirtækjunum andvirði skattsins tvöfalt og jafnvel meira vegna hruns íslensku krónunnar.  Embætti ríkisskattstjóra var tilkynnt um reikningsleysið fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum síðan og einnig hefur embættið fengið í hendurnar dæmi um reikninga sem voru gefnir út eftir á.  Lántakendur/kaupleigutakar eiga rétt á að fá upplýsingar um það strax hvort virðisaukaskattinum sem þeir greiddu hefur verið skilað til skattsins.

Á heimasíðum fjármögnunarfyrirtækjanna má lesa að kaupleiga er fjármögnunarleið ætluð fyrirtækjum en svokallaður bílasamningur er ætlaður  einstaklingum. Lánasamningar sem flestir einstaklingar eru með hjá Avant og SP heita Bílasamningur og Kaupleiga (með litlum stöfum undir). Samningarnir heita sem sagt tveimur nöfnum. Lýsing er ekki með kaupleigusamninga fyrir einstaklinga og skv. upplýsingum frá Lýsingu, er kaupleiga fyrir vsk. bifreiðar.  Menn hljóta því að spyrja hvers vegna þúsundir einstaklinga eru með fjármögnunarleið sem ætluð er fyrirtækjum. Þeir sem eru með bílasamninga/kaupleigusamninga eru skráðir umráðamenn bifreiðarinnar skv. ökutækjaskrá en skattalegir eigendur hennar á framtali og eru þar með ábyrgir fyrir öllum gjöldum og sköttum tengdum bifreiðinni.  Þó kemur ekki fram á samningum að kaupleigutakar skuli vera skráðir skattalegir eigendur.
Skv. eftirfarandi skýringu ríkisskattstjóra lítur einnig út fyrir að kaupleigusamningar eigi við fyrirtækjarekstur:
„Skattaleg meðferð kaupleigusamninga hjá leigutaka er önnur en skattaleg meðferð fjármögnunarleigusamninga, þar sem litið er á kaupleigusamninga eins og kaup á varanlegum rekstrarfjármunum sem ber að eignfæra og afskrifa skv. almennum reglum jafnframt því sem skuldbindingin að baki kaupleigusamningi er talin til skuldar hjá leigutaka."

Í skilmálum lánasamningana SP og Avant stendur að bílasamningur sé „í eðli sínu" kaupleigusamningur. Bílasamningur er þó skilgreindur á heimasíðu SP Fjármögnunar sem jafngreiðslulán (annuitet). Samkvæmt túlkun hvers er þá bílasamningur „í eðli sínu" kaupleigusamningur? Er það túlkun  ríkisskattstjóra sem skráir lántakendur/kaupleigutaka sem skattalega eigendur bifreiðanna eða er það túlkun fjármögnunarfyrirtækjanna? Er ríkisskattstjóri sammála því að bílasamningur sé í eðli sínu kaupleigusamningur? Og er eðlilegt að skrá hluti á skattframtöl einstaklinga sem heita eitt en eru „í eðli sínu" eitthvað annað?  Er jafngreiðslulán í eðli sínu kaupleiga? Hér er einkennilegt samsull á ferðinni.

Að lokum, þegar upplýsingar úr Rannsóknarskýrslu Alþingis eru settar í samhengi við þessa kaupleigusamninga sem eru óuppsegjanlegir að hálfu kaupleigutaka (mjög athyglisvert atriði) virðist helsta markmið fjármögnunarfyrirtækjanna ekki hafa verið að lána fólki til bifreiðakaupa heldur að stunda gegn því spákaupmennsku og svíkja út úr því fé. Næsti pistill fjallar um þetta.

(Þessi grein var send inn til Morgunblaðsins til birtingar  en  „vegna mikils fjölda greina sem biðu birtinga" var ekki pláss fyrir hana en samt  hef ég tekið eftir fullt af nýjum greinum sem hafa birst í blaðinu síðustu daga og voru greinilega sendar inn á eftir þessari.)


Myntkörfurnar eru sjóðir

Í grein minni í Morgunblaðinu 28. október sl. hélt ég því m.a. fram að á bak við myntkörfur SP - fjármögnunar væru engin erlend lán. Fyrirtækið gat t.d. ekki sýnt fram á  greiðsluyfirlit í erlendu gjaldmiðlunum sem lánið átti að samanstanda af, heldur aðeins yfirlit í íslenskum krónum og SP5 einingum.

Eftir að greinin birtist setti SP tilkynningu á heimasíðu sína, www.sp.is, og sýndi hvernig myntkörfur fyrirtækisins væru reiknaðar.  Fram af því var ekki að finna staf um þessa útreikninga, hvorki á heimasíðu SP né í lánaskjölum.  Útskýringar SP sýna að myntkörfurnar eru einhvers konar sjóðir, þar sem lánsfjárhæð er breytt í einingar.  Lántakendur skulda því einingar í myntkörfum sem hafa ákveðinn stofndag, stofngengi og ákveðinn  „fjölda mynta í körfu“ rétt eins og háttað er með fjárfestingasjóði, t.d. hlutabréfasjóði.

Það þarf ákveðið hugmyndaflug til að veita neytendalán í einhvers konar gjaldeyrisskuldasjóði.  Venjan er að menn fjárfesti í sjóðum, kaupi  einingar (hluti) í von um hækkandi gengi  og ávöxtun á fé.  Að hafa þennan hátt á í bíla- og neytendalánum hlýtur að vera alveg nýtt fyrir flestum.  Engu að síður er það áhugavert að geta nú lesið tilkynningu á heimasíðu lánveitandans  um hvernig lán maður tók fyrir mörgum árum!

Lánin voru kynnt sem erlendar myntkörfur með ákveðnum hlutföllum erlendra gjaldmiðla. Myntkarfan SP5 á  t.d. að samanstanda af  40% EUR, 25% USD, 20% CHF og 15% JPY og er kynnt þannig enn í dag.  Það sem SP útskýrir nú á heimasíðu sinni er „að ekki sé um að ræða hlutfall mynta í körfu heldur fjölda þeirrar ákveðnu myntar í körfunni.“  Samt sem áður er þetta upphaflega hlutfall skráð á marga lánasamninga, þó að það hlutfall eigi aðeins við um stofndag körfunnar.  Með öðrum orðum  var hlutfallið orðið annað þegar lánin voru veitt (utan þeirra sem veitt voru á stofndegi körfunnar, ef einhver.  SP5 myntkarfan var t.d. stofnuð í maí 2004).

Það sem SP staðfestir  með útskýringum sínum er að fyrirtækið er ekki og var ekki að veita erlend lán,  ekki frekar en að þeir sem kaupa einingar í hlutabréfasjóðum eru að kaupa hlutabréf.  Það er tvennt  ólíkt  að fá erlent lán eða lán sem afgreitt er í íslenskum krónum þar sem fjárhæð skuldar er breytt í einingar í sjóði sem fjárfestir í erlendum gjaldeyri og þar sem upphæð afborgana miðast við gengi sjóðsins á hverjum tíma.

Í tilkynningu sinni tekur SP einfalt reikningsdæmi þar sem gert er ráð fyrir að lánið sé vaxtalaust með einni afborgun.  Það sem SP ætti aftur á móti að sýna okkur er raunhæft dæmi, svo sem eina mánaðarlega afborgun af höfuðstól með vöxtum.  Hvernig eru vextir reiknaðir á skuld í einingum? Vextir eru til að mynda ekki reiknaðir á hluti í hlutabréfasjóðum heldur á lánsfjárhæðir, inn- og útlán í peningum.

SP-fjármögnun skuldar lántakendum skýringar á því hvers vegna hlutföll myntkörfunnar eru önnur en  skráð eru á fjölda lánasamninga. Það getur skipt verulegu máli fyrir lántakendur hvort þeir fái lán í þessum bílalánaskuldasjóði þegar  t.d. hlutfall jensins  er 15% eða 16% eða bandaríska dollarans 21% eða 25%. Að sama skapi getur þetta að sjálfsögðu breytt heilmiklu fyrir hagnað SP-fjármögnunar.


Höfundur

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband